Göngum saman 1. maí
30. apríl 2025
Baráttudagur verkalýðsins fer fram með hefðbundnum hætti fimmtudaginn 1. maí. Klukkan 13:30 verður gengið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og á Ingólfstorg þar sem baráttufundur stendur frá 14:00 til 15:00.
Slagorð baráttudagsins í ár er Við sköpum verðmætin og er dagskráin innblásin af Kvennaári 2025. Þá hefur fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík ákveðið að bjóða meðlimum Rauðsokkahreyfingarinnar að ganga fremst í göngunni í ár af tilefninu, en árið 1970 hafði hreyfingunni treglega verið leyft að taka þátt og þá gert að ganga aftast. Risavaxin Venusarstytta, skreytt borða sem á stóð Manneskja, ekki markaðsvara, sem Rauðsokkur báru 1970 og vakti mikla eftirtekt, hefur verið endurgerð af tilefninu.
Við hvetjum alla til að sýna samstöðu og styrk í verki með því að taka þátt í kröfugöngu eða skipulagðri dagskrá samtaka launafólks um land allt á 1. maí.